c

Pistlar:

2. maí 2020 kl. 12:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lokaslagur íslenskra fjölmiðla?

Það er ekkert nýtt að rekstarumhverfi íslenskra fjölmiðla sé erfitt. Saga þeirra ber það með sér þó líklega hefi keyrt um þverbak síðasta áratug eða svo. Það gerðist í kjölfar þess að fjölmiðlarnir nutu mikils uppgangs í aðdraganda fjármálakreppunnar 2008. Árin á undan fjölguðu blöðin útgáfudögum og þau belgdust út í síðufjölda. Dagblöðum fjölgaði og djarfhuga menn voru óhræddir við að reyna nýja hluti. Áskriftarsjónvarp virtist raunhæfur valkostur og Stöð 2 háði djarfa samkeppni við Ríkissjónvarpið. Fréttastofa Stöðvar 2 var vel skipuð og oftar en ekki í fararbroddi. Kosningasjónvarp Stöðvar 2 var þá frísklegur valkostur miðað við Ríkissjónvarpið. Sú hugmynd að hefja útgáfu viðskiptadagblaðs á Íslandi sýndi líklega betur en margt annað hve stórhuga útgefendur voru, nú eða glámskyggnir.

En forsendur fyrir mörgum þessum rekstarfélögum voru óljósar og margt var á sandi reist. Sumir fjölmiðlar soguðust niður í bankahruninu og aðrir börðust fyrir lífi sínu, í gjörgæslu þess sem eftir var af bankakerfinu. Segja má að síðasta áratuginn hafi fjölmiðlar hrakist úr einu víginu í annað. Fyrir því eru margar ástæður. Hugsanlega er sú veigamesta að almenningur notar fjölmiðla á annan hátt en áður og lestur dagblaða hríðfellur eins og kom fram í umfjöllun Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu. Það var örlagaríkt á sínum tíma að telja fólki trú um að vara eins og dagblað gæti verið ókeypis. Það hlaut að koma í bakið á fjölmiðlarekstri að lokum. Ef neytandinn hættir að líta á blaðið sem vöru sem hann borgi fyrir af því að hann hefur kosið svo hefur mikið tapast. Það segir sig sjálft að það er miklu einfaldara að fara af stað með blað sem dreift er ókeypis en blað sem þarf að ná til tiltekins hóps áskrifenda. Viðskiptaáætlanirnar verða einfaldari þegar sá þáttur er tekin út úr jöfnunni og að lokum hættu allir að reyna að búa til áskriftarblað. Þar með er önnur aðaltekjustoð dagblaðsins horfin.fjölfjöl

Samkeppnin við Ríkisútvarpið

Annað sem hefur haft áhrif er sú samkeppnisstaða sem fjölmiðlum er skömmtuð. Ef við horfum til markaðarins hér á Íslandi þá er fyrst til að taka Ríkisútvarpið. „Fíllinn í stofunni“ eins og stundum er sagt. Ríkisútvarpinu er ætlað að starfa eftir lögum sem um það eru. Þeim er meðal annars ætlað að afmarka starfsemi Ríkisútvarpsins og sníða því viðeigandi stakk á samkeppnismarkaði. Innan Ríkisútvarpsins hefur hina vegar verið rík tilhneiging til að leita út fyrir þennan ramma og sækja sér fjármagn í beinni samkeppni við aðra.

Um það eru mörg dæmi. Það þurfti að slá á puttana á starfsmönnum RÚV þegar þeir voru byrjaðir að selja auglýsingar inn á vef sinn þó augljóslega væru engar lagaheimildir fyrir slíku. Sókn stofnunarinnar í kostunarsamninga er öllum kunn og þá hefur stofnunin oft á tíðum sótt með áköfum hætti inn á auglýsingamarkaðinn og ekki hikað við að taka smæstu bitanna frá miðlum á samkeppnismarkaði. Einnig má rifja upp ásókn RÚV í kvikmyndastyrki sem ætlaðir eru sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðamönnum. Sömuleiðis má hafa í huga að RÚV hefur ekki hikað við að yfirbjóða bæði dagskrárþætti og starfsfólk annarra fjölmiðla. RÚV ekki getað látið samkeppnissjóði í friði þó stofnuninni sé skammtað rúmt fjármagn með sérstökum nefskatti. Hann skilar RÚV tæpum fimm milljörðum króna á yfirstandandi ári, sem er þá til viðbótar öðrum tekjum sem stofnunin hefur.

Samfélagsmiðlar soga til sín tekjur

Í þriðja lagi er það sú breyting sem kemur með samfélagsmiðlunum sem halda athygli fólks í dag. Flestir eyða mun meiri tíma í samfélagsmiðla en aðra miðla og ungt fólk sérstaklega. Þeir bjóða klæðskerasaumaða markhópa sem byggjast á því að notendur þeirra hafa afhent allar upplýsingar um sjálfa sig. Þessu til viðbótar greiða þessir miðlar hvorki skatta né skyldur af starfsemi sinni og engin veit hvar hagnaður þeirra hafnar að lokum. Það breytir því ekki að opinberir aðilar á Íslandi telja auglýsingafé sínu best varið hjá þeim nú þegar á að efna til auglýsingaherferðar sem ætlað er að kynna Ísland á sínum einstöku forsendum.

Í Morgunblaðinu í dag er bent á að stjórnvöld í Ástralíu og Frakklandi vinna markvisst að því að rétta hlut innlendra fréttamiðla í samkeppni við netrisa eins og Facebook og Google, sem komist hafa upp með það um árabil að nota fréttir og annað efni miðlanna á vefjum sínum án greiðslu. Hafa þau leitað til dómstóla í þessu skyni. Í fréttinni er bent á að þó almennur skilningur sé á því að fagleg blaðamennska skipti þjóðfélagslega máli bendir margt til þess að núverandi skipulag á netinu styðja ekki við hana. Augljóslega þurfi að gera róttækar breytingar ef menn vilji áfram njóta trausts og ábyrgs fréttaflutnings og upplýsingamiðlunar. Íslensk yfirvöld virðast enn eiga eftir að ákvaða hvaða leið þau vilja fara og leiðarahöfundur Morgunblaðsins skefur ekki af því og bendir á þá mótsögn að stjórnvöld gera ekkert til að leiðrétta ósanngjarna samkeppni en vilja um leið gera frjálsa fjölmiðla að beiningamönnum ríkissjóðs. Taka má undir það. Nær væri að bæta samkeppnisstöðuna áður en búið er til millifærslukerfi.

Boð og bönn takmarka tekjumöguleika

Í fjórða lagi eru það hinar sérstöku aðstæður sem látnar eru ríkja um íslenska fjölmiðla sem augljóslega rýra samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum miðlum. Íslenskum sjónvarpsstöðum er ætlað að þýða allt erlent efni sem þær dreifa. Þetta virkar hálf hjákátlegt þegar stór hluti heimila landsins eru komin með áskrift að streymisveitu sem er ekki bundið af neinum slíkum kvöðum.

Annað slíkt atriði er bann við áfengisauglýsingum en ekki er langt síðan það var gert að umræðuefni hér. Í gegnum tíðina hefur þetta stuðlað að einstaklega ósanngjarnri samkeppni og á sínum tíma fundu íslensk tímarit sérstaklega fyrir því. Erlend tímarit lágu hér frammi og voru seld börnum og unglingum með sínar áfengisauglýsingar á meðan íslensk tímarit voru meira að segja hundelt fyrir það eitt að taka áfengi til umfjöllunar. Augljóslega myndi það hleypa nokkru fjármagni til íslenskra fjölmiðla að leyfa slíkar auglýsingar sem hvort sem er flæða hér yfir allt í gegnum erlenda miðla og erlendar útsendingar.lesturfj

Menningarlegt hlutverk fjölmiðla

Tímaritin eru nánast horfi á Íslandi og dagblaðaútgáfa á stórlega undir högg að sækja. Þar með er að hverfa stétt ljósmyndara, umbrotsfólks og hönnuða, fólk sem hefur glímt við að skapa menningavöru sem skiptir samfélagið miklu máli. Mikið af þessu efni er inn á vefnum timarit.is þar sem fræðimenn og almenningur geta gengið í fjársjóðskistur fjölmiðla fortíðarinnar. Það er undarlegt að þeir sem stóðu fyrir því að skapa þessi verðmæti virðast ekki njóta mikillar velvildar hjá þeim sem kaupa áskriftir í dag. Fjármunir sem fara í fjölmiðlaáskriftir í dag eru allir sendir úr landi án þess að nokkrar skyldur gagnvart íslensku samfélagi fylgi. Það er undarleg niðurstaða.