c

Pistlar:

9. maí 2020 kl. 11:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskeldi - nýjasta útflutningsgreinin


Ef fólki væri sögð sú saga að hér hefði á til þess að gera skömmum tíma orðið til atvinnugrein sem skapaði tugmilljarðakróna útflutningsverðmæti án nokkurrar aðstoðar skattgreiðenda myndu líklega flestir fagna því. Ekki nóg með það því á sama tíma hefur þessi grein skapað talsverðan uppgang á þeim atvinnusvæðum landsins sem áttu mest undir högg að sækja. Þessi nýja grein skapar störf á breiðu bili, bæði fyrir sérfræðimenntaða háskólaborgara og ófaglærða og borgar hærri laun en hafa verið greidd um árabil þar sem hún hefur haslað sér völl. Þá eru afleidd störf greinarinnar umtalsverð og hún hefur í raun gerbreytt bæjarbragnum þar sem hún er með starfsemi sína. Ekki nóg með það, þessi starfsgrein er tilkominn vegna erlends áhættufjármagns og nýtur ekki neinna séraðgerða í gegnum sértæka fjárfestingasamninga. Það þarf ekki að endurgreiða neinum neitt sem leggur fé sitt í þessa grein og það þarf ekki að ráðast í rándýrar markaðsherferðir erlendis til þess að koma henni á koppinn. Hvernig gátu Íslendingar verið svona heppnir?fiskel

Já, hér er verið að tala um fiskeldi, þá útflutningsgrein sem vex hvað hraðast atvinnugreina á Íslandi þessi misseri. Þeir sem lesa þessa lýsingu taka til dæmis eftir að ekki þarf að endurgreiða erlendum auðjöfrum virðisaukaskatt vegna starfsemi eins og í tilfelli kvikmyndaverkefna sem gjarnan er hampað.

Ný grunnatvinnugrein

Augljóst er að styrkur landa til atvinnusóknar og uppbyggingar felst í öflugum grunnatvinnuvegum. Því fleiri og fjölbreyttari sem þeir eru, því meiri er efnahagslegur sveigjanleiki hagkerfa og þannig eru þau betur í stakk búin til að bregðast við óvæntum áföllum, án þess að það komi verulega niður á lífskjörum íbúa. Grunnatvinnuvegur er sá sem leggur mun meira til verðmætasköpunar í landinu en beint framlag hans til landsframleiðslu gefur til kynna, þar sem margfeldisáhrif hans út í hagkerfið eru veruleg. Þetta á einkum við um lítil opin hagkerfi líkt og hið íslenska. Vissulega er fiskeldi enn fremur smátt í sniðum miðað við stærstu útflutningsatvinnugreinarnar, en þar liggja þó veruleg tækifæri til frekari verðmætasköpunar. Því er ofangreind aukning á útflutningsverðmæti eldisafurða jákvæð tíðindi fyrir þjóðarbúið, sér í lagi á tímum sem þessum.

Lítum á nokkrar tölur. Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.739 milljónum króna í mars. Þetta er fjórði stærsti mánuður frá upphafi á kvarða útflutningsverðmæta, hvort sem mælt er í krónum eða erlendri mynt. Þetta er um 27% aukning í krónum talið frá mars í fyrra. Aukningin er ívið minni í erlendri mynt út af veikingu krónunnar en engu að síðu myndarleg, eða rúm 17%. Magnaukningin er svipuð, eða tæp 18%.

Jákvæð tíðindi á erfiðum tímum

Augljóslega eru að verða miklar breytingar í verðmætasköpun fiskeldis hér á landi. Sé tekið mið af fyrstu þremur mánuðum ársins, er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 8,2 milljarða króna samkvæmt tölum sem Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi tóku saman. Það jafngildir
26% aukning í krónum talið á milli ára en rúm 21% í erlendri mynt. Þar af er útflutningsverðmæti á eldislaxi komið í rúma 6,4 milljarða króna samanborið við 5,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Aukningin þar er nákvæmlega sú sama og á eldisafurðum alls. Útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, er komið í um 1,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 1,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Jafngildir það aukningu upp á rúm 54% í krónum talið en rúmum 48% á föstu gengi. Talsverður samdráttur hefur verið á útflutningsverðmæti annarra eldisafurða, en verðmæti þeirra á fyrsta ársfjórðungi nam 123 milljónum króna samanborið við 353 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Faraldurinn hefur sín áhrif

Í grein sem birtist á Radarnum í lok mars voru til umfjöllunar áhrif COVID-19 á starfsemi og útflutning eldisfyrirtækja, en þau hafa ekki farið varhluta af ástandinu fremur en aðrar atvinnugreinar. Þar er tínt til verulegur samdráttur í eftirspurn, verðlækkanir og áhrif á dreifikerfi. Radarinn veltir því fyrir sér hvort aukningin hefði ekki orðið meiri í mars í eðlilegu árferði og telur það mjög líklegt. Áhrifin verða sennilega skýrari í tölum aprílmánaðar. Miðað við nýja tilrauntölfræði Hagstofunnar þá virðist útflutningur á eldisafurðum minnka verulega eftir viku 13, sem rímar vel við fregnir frá eldisfyrirtækjum.

Það er kannski fróðlegt að skoða að eldisafurðir falla undir landbúnaðarafurðir í tölum Hagstofunnar. Eldið á þar langstærstan hlut og var hvorki meira né minna en rúm 86% af heildarverðmæti útfluttra landbúnaðarafurða á fyrsta ársfjórðungi. Eftir áratugastarf við að reyna að markaðssetja íslenskar landbúnaðarafurðir erlendis, með miklum tilkostnaði, er þetta niðurstaðan. Og það án þess að ríkissjóður hafi varið krónu í þetta markaðsstarf.