Pistlar:

1. ágúst 2019 kl. 10:26

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Sæstrengssviðmyndir

Ég verð að viðurkenna að ég óttast það tak sem Evrópusambandið nær á auðlindum okkar ef svokallaður Orkupakki 3 verður samþykktur á Alþingi á næstu vikum. Ef Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann þá er þjóðin skuldbundin til að fylgja öllum reglum hans. Annað væri brot á EES samningnum. 

Í síðasta pistli mínum lofaði ég að draga upp sviðsmyndir sem sýna fram á undir hvernig aðstæðum þjóðin verður sannfærð um nauðsyn þess heimila lagningu raforkusæstrengs í kjölfar þess að Orkupakki 3 verður samþykktur. Hér koma þær:

Sviðmynd númer eitt. (fjárhagsleg þvingun)

Árið er 2020 og Alþingi hefur nýlega samþykkt Orkupakka 3. Erlendur lögaðili aðili óskar þess lögformlega við íslenska ríkið að fá að leggja hingað raforkusæstreng. Erindið er rætt á Alþingi og ákveðið er að leggja málið fyrir þjóðaratkvæði. Alþingi staðfestir vilja þjóðarinnar og tilkynnir þessum erlenda aðila að þjóðin hafi hafnað þessari lögmætu umsókn (í þjóðaratkvæði). Umsóknar aðilinn sættir sig ekki við tæknilegar viðskiptahindranir af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem samkvæmt lögum bæði í Evrópu og hér á Íslandi er rafmagn skilgreint sem vara, því er óheimilt samkvæmt ákvæðum EES samningsins um frjáls viðskipti að hindra frjálst flæði vöru og þjónustu. 

Umsóknar aðilinn kærir ákvörðun Alþingis og krefst skaðabóta auk þess að hindrunum þessum verði rutt úr vegi. Íslenska ríkið er dæmt til þess að heimila lagningu raforkusæstrengs að öðrum kosti greiða himinháar skaðabætur (70 til 100 milljarða eða 10% af fjárfestingunni) á hverju ári, þar til að heimild fyrir lagningu strengsins liggur fyrir, samþykkt af Alþingi. Þingmenn eiga engan annan kost en að samþykkja lagningu strengsins til þess að losa þjóðina undan þeim álögum sem á hana hafa verið lagðar. 

Sviðsmynd númer tvö (Þvingun vegna ytri áhrifa)

Þessa sviðsmynd setti ég fram fyrst í pistli sem ég skrifaði hér 16. maí 2019 síðastliðinn. Horfum nú fram til ársins 2040 eða fram um ríflega 20 ár, mikil tækniþróun hefur átt sér stað á öllum sviðum enda svokölluð fjórða iðnbylting verið á fullri ferð og ekki sér fyrir um allar þær breytingar sem eru að ganga yfir heiminn. Vegna breytinga á markaði m.a. vegna mikillar gjaldtöku á kolefnis útblæstri á flutningum bæði hrávara og tilbúinna afurða hefur stóriðjan að mestu farið úr landi þar sem orkuverð plús kolefnisgjald sem er óhagkvæmt hér vegna legu landsins, langt frá helstu uppsprettum hráefnis og mörkuðum. Kolefnisgjaldið hefur orsakað það að stóriðnaðarframleiðsla er mun hagkvæmari annaðhvort hjá hráefnisuppsprettum eða við helstu markaðssvæði. 

Þessi þróun hefur haft það í för með sér að 80% af allri þeirri orku sem framleidd er hér á landi er ekki að seljast. Fjöldagjaldþrot blasir við í orkugeiranum ef ekki verður lagður hingað raforkusæstrengur eins fljótt og mögulegt er. Raforkuverð til þjóðarinnar ríkur hér upp úr öllu valdi vegna rekstrarerfiðleika raforkuframleiðenda sem þrýsta nú sem aldrei fyrr á verðhækkanir og lagningu raforkusæstrengs. Þingmenn eiga ekki annan kost til þess að stemma stigum við þeim vandræðum sem sem orkufyrirtækin eru komin í heldur en að samþykkja lagningu sæstrengs til landsins. 

Sviðsmynd númer þrjú (Þvingun raforkuframleiðenda)

Árið er 2025, Landsvirkjun hefur þvingað stóran hluta af stóriðjunni til þess að leggja hér niður starfsemi, með því að hækka verð á orku til þeirra langt umfram það sem hefur gerst hefur á heimsmarkaði. Þetta gerist í áföngum þegar samningar við stóriðjuna losna hver af öðrum. Hækkanirnar verða slíkar að stóriðjufyrirtækin sjá hag sínum betur borgið með því að flytja starfsemina til landa þar sem hagkvæmara orkuverð fæst. Líkt og í sviðmynd tvö þá myndast mikið magn umframorku í kerfinu sem þarf að koma í verð til þess að raforkukerfið verði sjálfbært. 

Veruleg rekstrarvandræði blasa við Landsvirkjun ef ekki fæst heimild til þess að leggja hingað sæstreng og selja í gegnum hann þá orku sem stóriðjan notaði áður. Alþingi sér fram á verulega efnahagskreppu til lengri tíma ef Landsvirkjun verður ekki komið til hjálpar með að koma orkunni í verð með því að leggja hingað raforkusæstreng. 

Vera kann að fólki þyki þessi sviðmynd óraunhæf en hún er þrátt fyrir allt sú sviðsmynd af þessum þrem sem hér eru settar fram sem líklegust er til þess að rætast. Í raun má halda því fram að þetta ferli sé þegar hafið. Álver Ríó Tintó í Straumsvík hefur verið rekið með umtalsverðum halla frá árinu 2010 er Landsvirkjun gerði við félagið nýjan stórhækkaðan orkusamning sem kippti rekstrargrundvelli undan félaginu að verulegu leiti. Samningar við kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga eru í uppnámi og því ríkir fullkomin óvissa með framhald þar. Norðurál á Grundartanga gerði nýlega samning við Landsvirkjun til 5 ára (gildir til 2025) þar sem orkuverð hækkar verulega og áhugavert verður að skoða rekstrarniðurstöður þar þegar sá samningur hefur tekið gildi. 

Öllum má vera ljóst að Landsvirkjun hefur undirbúið komu raforkusæstrengs til landsins um langt skeið. Fyrirtækið hefur þegar eitt hundruðum milljóna í undirbúning á þessu verkefni og kynnt þá möguleika sem slíkur strengur getur haft á afkomu fyrirtækisins til lengri tíma, reglulega á ársfundum sínum. 

Peðin sem fórnað verður í þessari refskák gangi hún fram eins og flest bendir til,  eru almenn heimili á íslandi og íslensk atvinnufyrirtæki sem bæði munu þurfa að búa við ört hækkandi raforkuverð sem kemur til með að sveiflast eftir tíðarfari og markaðsaðstæðum í Evrópu en ekki aðstæðum hér á landi. 

Þetta er merkilegt í því ljósi að þeir sem telja að óhagkvæmt sé að taka hér upp gjaldmiðilinn Evru, helst vegna þess að sveiflur hans séu ekki í takti við íslenskt efnahagslíf. Virðast núna komast að þeirri niðurstöðu að það sé gott fyrir íslenskt efnahagslíf að raforkuverð hér sveiflist í takti við Evrópskt tíðarfar en ekki íslenskan raunveruleika.

25. júní 2019

Það er framsýni og sjálfbærni falin í því að segja NEI

Ég er einn af þeim sem hef sett mig upp á móti því að Alþingi samþykki svokallaðan Orkupakka 3. Ég hef ekki séð nein þau rök með þessu máli að ég telji að hægt sé að réttlæta þetta evrópska regluverk. Ég tel mig þó ekki vera sérstakan talsmann einangrunar og þjóðrembu eins og þeir sem aðhyllast samþykkt þessa sama orkupakka telja sig geta alhæft um.  Þeir sem hafa vondan málstað að verja og meira
16. maí 2019

Hvar stöndum við 2040 ef við innleiðum þriðja orkupakkann?

Mikil átök hafa verið um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem Alþingi er með til umfjöllunar þessa dagana. Átökin hverfast um lögfræðileg álitaefni að mestu, en gallinn við þessa umræðu er að hún er einsleit og átakafletir hafa snúist um hvort lögfræðilegir fyrirvarar sem fylgjendur innleiðingar vilja festa með þingsályktun haldi gagnvart Evrópusambandinu. Ég ætla í nokkrum línum að horfa á meira
9. apríl 2019

Af tröllasögum og heimóttarskap

Þingmaðurinn og rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson geystist fram á ritvöllinn með stuttri og snarpri grein í Fréttablaðinu í dag þriðjudaginn 9. apríl þar sem hann lymskulega kallar þá sem mótfallnir eru því að svokallaður orkupakki 3 sem nú er til umræðu á Alþingi verði samþykktur, einangrunarsinna með tröllasögur og heimóttarskap.  Í stað þess að ræða málið með rökum skal ráðast á meira
28. maí 2018

Það er þörf á að skipta upp Landsvirkjun!

Í aðsendri grein sem forstjóri Landvirkjunar ritar og birtist í Viðskiptablaðinu 25. maí síðastliðinn og nefnist „Um samkeppni á raforkumörkuðum“ reynir forstjórinn enn á ný að selja þjóðinni þá hugmynd að hlutverk Landsvirkjunar sé að safna peningum í nokkurskonar varasjóð ríkisins og fela alþingismönnum landsins að fara með það fé. Þjóðin hefur aldrei samþykkt þessa ráðstöfun og ekki meira
8. maí 2018

Hlýðin þjóð í vanda

Íslendingar hafa ekki talið sig hlýðna þjóða, að minnsta kosti ekki frá 1918, þegar þjóðin braust undan valdi hins dansks embættisvalds. Það skref hefur þó verið stigið til lítils, ef hið íslenska embættisvald ætlar að færa okkur undir skrifræðið í Brussel með síendurteknu minni háttar valdaafsali upp í eitt stórt. Burtséð frá fyrstu samningunum milli EFTA og ESB hafa orkulögin frá 2003 meira
5. apríl 2018

Auglýsingar og áfengi

Enn á ný er áfengið komið á dagskrá. Helst vegna tillögu nefndar um bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla sem ályktað hefur að rétt sé að afnema bann á áfengisauglýsingar. Höfundur þessa pistils hefur lengi haft áhuga á þessu efni sem sérfræðingur í markaðsmálum og kynnt sér það vel, m.a. með því að viða að sér þeim vísindagreinum sem ritaðar hafa verið um málefnið og birtar hafa verið í ritrýndum meira
4. mars 2018

Stóru vörumerkin skera niður stafrænar birtingar

Nokkuð merkileg þróun hefur verið að eiga sér stað hjá leiðandi vörumerkjum á neytendamarkaði eins og Procter & Gamble og Unilever, þetta eru jú þau vörumerki sem bera höfuð og herðar yfir önnur í flokknum CPG (Consumer Packaged Goods).  Þessir aðilar eru markvisst að lækka þær upphæðir sem notaðar eru í birtingar á stafrænum miðlum. Ástæðan er að athuganir þeirra og mælingar sýna að meira
28. febrúar 2018

Markaðsmál í ljósi nýrra persónuverndarlaga

Þann 27. apríl 2016 skrifuðu forsetar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins undir nýja evrópska persónuverndarlöggjöf en löggjöfin mun taka gildi þann 25. maí 2018 í Evrópu. Vernd persónuupplýsinga er talinn hluti af EES-samningnum og mun löggjöfin því verða tekin upp í íslensku réttarfari. Rétt er þó að taka fram að löggjöfin mun hljóta þinglega meðferð Alþingis áður en hún tekur að fullu gildi meira
7. febrúar 2018

Ofurskálin

Auglýsing Dodge RAM sem sýnd var í frægasta auglýsingatíma heimsins, á sýningartíma Ofurskálarinnar í Bandaríkjunum, hefur vakið nokkra eftirtekt landsmanna. Þar mátti sjá íslenska víkinga og íslenskt landslag í skemmtilegri framsetningu leikstjórans Joe Pytka. Vörpulegir íslenskir leikarar, íslensk náttúra og víkingaskip.    Margir hafa eðlilega velt fyrir sér hverju þetta skilar. Eða meira
7. september 2017

Um hugsanaskekkju og markaðslegt hugrekki

Ég rakst á grein í Fréttablaðinu í morgun frá framkvæmdastjóra Markaðsráðs kindakjöts sem ég sem markaðsmaður og áhugamaður um markaðsmál hef verið hugsi yfir. Greinin er gott dæmi um hugsanaskekkju varðandi markaðsmál sem virðist nokkuð algeng og maður sér reglulega í viðtölum við fólk víðsvegar úr atvinnulífinu.  Vandamál sauðfjárbænda eru flestum sem fylgjast með fréttum og þjóðmálum kunn meira
18. ágúst 2017

Samkeppnin á olíumarkaði

Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu 4. ágúst síðastliðinn selur Costco sjötta hvern dropa af bensíni sem seldur er á landinu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið að hlutdeild heildsölurisans sé með rúmlega 15% á höfðuðborgarsvæðinu. Ljóst er að afkoma olíufélaganna mun að einhverju leiti taka mið af þessari hlutdeildartilfærslu þegar næsta uppgjör verður birt.   Ég eins og eflaust margir meira
7. júlí 2017

Karllæg samgöngustefna Samfylkingar

Eva H. Baldursdóttir varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar ritar í Fréttablaðið pistil í vikunni sem hún kallar „Einokun einkabílsins“. Í þessum pistli heldur Eva því fram að umræður um almenningssamgöngur hafi færst í hægri og vinstri dilka þannig að þeir sem teljast vera með stjórnmálaskoðanir til hægri, telji sig þurfa að vera í harðri vörn fyrir einkabílinn. Eva skrifar einnig: meira
5. júlí 2017

Í hverju liggur markaðssnilldin

Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 var í viðtali í helgarblaði DV fyrir skömmu. Þar voru höfð eftir honum ummæli sem ég er búin að vera nokkuð hugsi yfir frá því að ég sá blaðið.  Fyrri ummælin eru þessi: (breiðletrun er greinarhöfundar) „Ég veit alveg hvað kostar að kaupa bensín til Íslands og selja það ef taka á tillit til alls kostnaðar og fjárfestinga sem eru talsverðar. Ef N1 meira
30. júní 2017

Vík skal milli vina, fjörður milli frænda

Þessi gamli málsháttur, sem ekki er víst að hafi myndast í einu lagi, hefur í sér ákveðin boðskap. Hér býr fólk dreift og er alið upp við það. Þó blóðflokkar sýni að blóð okkar sé oftar sé oftar af írskum uppruna en norskum, bendir málfar okkar, siðir og málshættir fremur norsku fjarðanna, þar sem menn bjuggu dreift, sóttu sjó og kærðu sig lítt um meir en hæfilegan átroðning vina og meira
20. júní 2017

Tímamóta viljayfirlýsing Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Landsvirkjunar

Nokkuð er síðan að margar af fiskimjölsverksmiðjum landsins settu upp rafmagnskatla meðfram olíukötlum þeim sem í notkun voru um áratuga skeið. Þetta var þegar verð á rafmagni var lágt og olíuverð hátt sem þessi þróun fór af stað sem hagræðingar aðgerð af hálfu fiskmjölsframleiðenda. Síðustu ár hefur síðan Landsvirkjun markvisst hækkað verð á raforku til fiskimjölsverksmiðja á sama tíma og meira
6. júní 2017

Plagsiðurinn að grenja út fé

Það var áhugaverð sú skoðun Rúnars Geirmundssonar sem kom fram á bls. 4 í Morgunblaðinu í morgun að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma beiti hótunum til þess að fá aukið fjármagn til reksturs. Rúnar starfar sem útfararstjóri í eigin fyrirtæki og er formaður Félags íslenskra útfararstjóra. Fyrir rétt um viku síðan kom fram forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma og tjáði alþjóð að garðarnir meira
2. júní 2017

Vel gert ráðherra

Mikið hefur verið ritað og rætt um skipan dómara í Landsrétt síðustu daga. Eins og vænta mátti eru deildar meiningar um það hvernig skal með fara. Rétt er hér að taka fram að ég hef ekki á þessu neina sérstaka þekkingu og hef engin tengsl við þetta fólk sem sóttist eftir þessu starfi.  Eitt af því sem þarf að skoða í þessu samhengi er sú staðreynd að síðustu ár hefur það sífellt færst í meira
31. maí 2017

Mikilvægi eigendastefnu Landsvirkjunar

Ég hef nokkru sinnum áður sest við lyklaborðið og skrifað pistla þar sem ég hef reynt að sýna fram á mikilvægi þess að Alþingi marki fyrirtækinu Landsvirkjun eigendastefnu. En frá því að raforkulög hér á landi voru Evrópuvædd árið 2003 hefur í raun ekki verið mörkuð eigendastefna fyrir Landsvirkjun eða mörkuð heildstæð stefna um orkumál og orkunýtingu. Þetta er bagalegt því eigendastefna er þessum meira
20. mars 2017

Orsakatengsl neyslu og fjölgunar útsölustaða ofmetin

Enn á ný ætla ég mér að setja hér nokkrar línur á blað um markaðssetningu á áfengi í tengslum við áfengisfrumvarpið svokallaða, þrátt fyrir að það sé líkt og að lenda undir valtara svo mikill er tilfinningaþrungin hjá ýmsum þeim sem komið hafa fram á ritvöllinn opinberlega.  Síðastliðinn laugardag birtist grein á mbl.is sem bar yfirskriftina „Aukið aðgengi eykur skaða“ þarna var á meira
Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur